Í næstu sjö pistlum mínum ætla ég að fjalla um dauðasyndirnar sjö. Sú fyrsta í þeim flokki fjallar um hroka.
Hroki er það ástand sem við notum þegar að okkur líður ekki vel og við erum óörugg. Hrokafullur einstaklingur lítur út fyrir að vera mjög öruggur með sig en er það í rauninni ekki. Hvort sem að við erum sjálf hrokafull eða aðrir í kringum okkur þá er ágætt að átta sig á því hvaða hegðun er þarna í gangi og hvaða hugsun á sér stað í hrokafullum einstaklingi.
Hroki er andstæða sjálfstrausts. Hroki framkallar bölsýni og þröngsýni, við komum fram með svartsýni og ásakanir í garð annarra og dæmum allt og alla. Að vera hrokafullur er mjög erfitt ástand og vont, hroki kemur í veg fyrir alla sjálfsskoðun og fátt er eins leiðinlegt og að vera hrokafullur og sárt að finna til hans hjá sjálfum sér. Þegar við erum hrokafull erum við skeytingarlaus í samskiptum við annað fólk, okkur er sama hvernig aðrir hafa það og höldum gjarnan að allt sé sjálfgefið.
Þessi hegðun leiðir af sér einangrun eða þá að við finnum fólk til að umgangast sem er jafn illa statt og við sjálf til að viðhalda hrokanum. Þegar talað er um dauðasyndirnar sjö er hrokinn þar efstur á blaði og talið að hvað verst sé að glíma við þessa höfuðsynd.
Það er ekki gott að temja sér hroka og það er vont að lifa með þeim sem eru hrokafullir. Er ekki nauðsynlegt að skoða hvort að líf mitt sé litað af hroka?
Gangi þér vel.
Ágirnd er númer tvö í pistlum mínum um dauðasyndirnar sjö. Ágirnd sýnir sig þannig í hugarfari okkar að við förum að girnast hluti sem við eigum ekkert í og viljum ekki hafa fyrir að fá okkur. Við viljum hrifsa til okkar annarra manna hluti.
Ágirnd og væntingar eru svipaðir hlutir en þeir leiða af sér sömu tilfinninguna, það er að segja vonbrigði sem aftur leiða af sér sársauka. Að vera ágjarn einstaklingur þýðir að við höfum ekki í hyggju að vinna fyrir því sem við viljum fá. Við ætlumst til þess að fá hluti án þess að gera nokkuð í því sjálf. Að vera ágjarn þýðir í raun að vera tilætlunarsamur. Við förum að gera kröfur til annarra sem eru ekki sanngjarnar og við krefjum fólk um hluti sem það sjálft á og hefur jafnvel unnið hörðum höndum fyrir. Við ætlumst til þess að fólk gefi okkur hluti án þess að hafa gert nokkuð til þess að verðskulda þá.
Ágirnd er hugarfarsleg blekking, við teljum okkur trú um að við séum þess verðug að ganga í eigur annarra. Að vera mikið í blekkingum hugarfarsins er skelfileg ánauð, alger þrældómur.
Ef ágirnd er partur af þínu lífi veltu því þá fyrir þér hvað þú getir sett í staðinn fyrir ágirndina. Hjálpsemi er dyggð öfugt við ágirnd. Get ég ekki látið eitthvað gott af mér leiða í dag?
Gangi þér vel.
Í dag er komið að þriðju umfjöllun minni um dauðasyndirnar sjö en hún fjallar um fryggð. Oft er spurt um það hvort ást við fyrstu sýn sé til, en ég held ekki. Það væri frekar til fryggð við fyrstu sýn.
Ást og fryggð eru tveir ólíkir hlutir. Oft hefur verið bent á það að fryggð sé þessi synd sem að talin er vera fýsn holdsins og þar af leiðandi verið mælt mikið gegn henni allsstaðar þar sem um hana hefur verið fjallað. Það er hægt að tengja fryggð mikið við spennu sem að hefur ekkert með ást eða tilfinningalega upplifun að gera.
Þegar við lendum í miklu spennuástandi þá sækjum við gjarnan í hluti eins og fryggð sem að er lítil sem engin tilfinningaleg upplifun, mikið spennuástand og mikill streituvaldur. Að dvelja lengi í hugsunum um fryggð leiðir bara af sér gríðarleg vonbrigði og mikla streitu. Það fer ekki alltaf saman að upplifa hugarfarslegar vangaveltur og raunverulegar aðstæður. Fryggð sem verður að vana lýsir sér kannski í því að fólk fer að daðra mikið og verður tvíræðið í öllum samskiptum en fátt er eins leiðinlegt og þetta tvennt.
Er ekki ágætt að skoða hvort að þetta sé partur af mínu lífi. Dyggðin á móti fryggðinni er ást. Skoðaðu hvort að þessi synd sé þér samferða daglega.
Gangi þér vel.
Í pistlum mínum um dauðasyndirnar sjö er reiði þar númer fjögur. Reiðin er ein af tilfinningum okkar sem er mjög nauðsynleg. Við verðum að hafa reiðina til þess að geta varið okkur, það er ekkert óeðlilegt við það að verða reiður.
Það er bæði vont og óeðlilegt ef við hinsvegar leyfum reiðinni að setjast að hjá okkur því að reiðin hefur þannig áhrif að hún festir okkur í ákveðnum hugsunum og svamlar þar án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Reiðin hefur alls ekki jákvæð áhrif á okkur og enn síður á aðra sem umgangast okkur. Það getur verið mjög erfitt og þreytandi að umgangast fólk sem er mjög reitt.
Reiði og ótti eru líkar tilfinningar, öll tjáning verður afbökuð. Reiði er eins og veggjatítla sem nagar okkur hægt og bítandi innan frá og þeir sem hafa upplifað það að vera reiðir lengi finna hvernig hún tekur allt þrek frá þeim. Við höfum nánast ekkert þrek til að takast á við dagleg viðfangsefni vegna þess að reiðin byrgir okkur sýn. Það er líka töluvert einmanalegt líf að vera alltaf reiður.
Reiði leiðir alltaf af sér hatur og hatur er eitthvert það erfiðasta ástand sem við getum lent í. Það er voða gott að losna við það. Það er í raun mikið betra að vera sá sem er hataður heldur en að hata sjálfur.
Það sem upprætir reiðina eru kærleiksríkar hugsanir og væntumþykja í garð annarra og þannig getum við losað okkur undan reiðinni. Vert þú viðbúin því að dagurinn í dag verði kærleiksríkur.
Gangi þér vel.
Í umfjöllun minni um dauðasyndirnar sjö er græðgi þar í fimmta sæti. Ágirnd og græðgi eru af svipuðum toga að því leiti að við færumst of mikið í fang. Við viljum fá hluti sem að við nennum ekki að vinna fyrir, hvað þá að hafa fyrir því að fá hlutinn.
Græðgi getur líka sýnt sig í því að við borðum allt of mikið, mikið meira en að við höfum lyst á og mikið meir en við þurfum. Gráðugir einstaklingar eru gjarnan að taka sér allt of mikið fyrir hendur, þeir taka meira í fangið en þeir ráða við að bera. Verkefnin hlaðast upp og við ráðum ekki við að vinna úr þeim.
Græðgi verður að stjórnlausri hugsun gríðalega fljótt, hún endurspeglast bæði í mat og drykk og öllum þeim viðfangsefnum sem við erum að glíma við. Við getum orðið gráðug í nánast hvað sem er. Sá sem er gráðugur er áberandi óöruggur einstaklingur og bak við þetta er alltaf ótti og skelfingarástand, sífelld hræðsla við að fá ekki nóg. Borða t.d. áður en við förum í veisluna til þess að tryggja það að við séum ekki svöng og fáum örugglega nóg. Hrifsa til sín nógan mat og troða honum ofan í sig langt umfram þörf.
Græðgi er tilfinning sem að farin er úr böndunum. Auðvitað er nauðsynlegt að næra sig en þegar græðgi er farin að sýna sig þá eru hlutirnir farnir að fara úr böndunum. Við erum hætt að ráða við þá. Þá er hugarfarið jafnvel meira farið að stjórna þannig að græðgi á sér stað að verulegu leyti í hugarfarinu og því er tiltölulega auðvelt að breyta.
Hófsemi er eitthvað til að venja sig á gegn græðgi. Hófsemi væri þá gott innlegg í daginn í dag.
Gangi þér vel
Öfund er synd númer sex í pistlum mínum um dauðasyndirnar sjö. Öfund er eins og hinar syndirnar, þær stafa allar af gífurlegu óöryggi og öfund er þar engin undantekning.
Öfund er hlutur eins og að una ekki öðrum velgengni, öfundast yfir því hvernig öðrum gengur og hvað þeir hafa. Þetta er tilfinning sem við finnum oft fyrir þegar við erum mjög óörugg. Þegar við erum öfundsjúk út í annað fólk þá förum við gjarnan að einblína á það neikvæða í fari þess og sjáum allt neikvætt við það sem aðrir hafa. Við förum að tala þannig við fólk að við drögum úr því sem það er að gera vegna þess að öfundin byrgir okkur sýn. Þannig gerist það að við erum öfundsjúk, við verðum allt að því úrtölufólk í staðinn fyrir að vera hvetjandi og styðjandi einstaklingar.
Öfund leiðir það af sér að við förum að dvelja í beiskleika yfir brostnum vonum og tækifærum í lífinu. Við lítum á aðra einstaklinga sem hafa náð árangri í lífinu sem óvildarmenn okkar í staðinn fyrir að samgleðjast þeim og reyna að læra eitthvað af þeim.
Að vera öfundsjúkur er eins og að vera afbrýðisamur en þetta er hvort tveggja sprottið af óöryggi. Þetta setur okkur mikil takmörk í lífinu, við verðum einmana í ofanálag. Það verður til vítahringur sem erfitt er að koma sér út úr. Þegar við hættum að geta samglaðst og dáðst að öðru fólki verður lífið óhjákvæmilega mjög einmanalegt.
Andstæðan við öfund er að sjá það góða í öðrum og í kringum okkur og vera bjartsýnn. Skoðaðu hvort að þú getir samglaðst með öðrum og hvort að þú sért ekki þessi jákvæða styðjandi persóna
Gangi þér vel.
Nú er komið að síðasta pistli mínum um dauðasyndirnar sjö sem fjallar um leti. Það finnst nú mörgum ekkert voðalegt vandamál að vera latur og við tölum gjarnan um það að við séum ekki þreytt, heldur bara löt. Það er nú kannski ekki rétt skilgreining á leti.
Leti verður oft þetta lamandi ástand sem að dregur endanlega úr okkur alla framtakssemi og allan vilja til þess að ná árangri í lífinu. Við gerum bara það nauðsynlegasta til að lífið sé eðlilegt. Letiástand er samansafn annarra hluta og kemur ekki til af neinni sérstakri tilfinningu.
Grunnurinn í þessu öllu saman og allri þessari umfjöllun um höfuðsyndirnar sjö er sá sami eða ótti. Ótti getur orðið svo lamandi að hann verður að algeru letiástandi og við notum letina og afsökum okkur til þess að komast hjá því að takast á við verkefni. Leti er hegðun en ekki tilfinning. Að vera latur einstaklingur og að temja sér leti er á margan hátt framtaksleysi sem er þá sprottið af kvíða og ótta.
Það er gott að skoða letina og átta sig á því hvort maður flokkist undir þessa skilgreiningu. Ef ég er latur þá er eitthvað meira og stærra þar undirliggjandi. Leti er á engan hátt ásættanlegur eða eðlilegur hlutur. Yfirleitt fylgir letinni depurð, ráðaleysi og úrræðaleysi. Þetta er eitthvað sem að enginn ætti að sætta sig við.
Ef að þú ert latur einstaklingur og finnur fyrir því að þú kemur litlu í framkvæmd og hefur lítinn áhuga á öðru fólki, þú hefur jafnvel lítinn áhuga á að hafa það fallegt og skemmtilegt í kringum þig, þá þarft þú kannski að skoða tilfinninguna á bak við letina. Það er ekki neinum til framdráttar að vera latur því að þegar að við erum löt þá höfum við gjarnan hugsanir á hreinu okkur finnst ekki taka því að byrja á nokkrum hlut. Við segjum að þetta borgi sig aldrei og þetta og hitt svari aldrei kostnaði og við segjum við annað fólk að okkur detti sko ekki til hugar að gera þetta eða hitt því að það sé tímasóun. Við notum allskonar frasa eða setningar til þess að fá að dvelja áfram í letinni og segjum ósatt.
Forðast þú letina ásamt öllum hinum brestunum sem að ég hef nú fjallað um - þér til heilla!
Gangi þér vel.
Hæfileikar eru hlutir sem að við höfum öll og við höfum mikið af þeim en sjaldnast kunnum við á þá alla og er þetta fyrirbæri oft vannýtt og lítið notað. Það er frekar getan sem stjórnar því hvað við gerum og gerum ekki, ekki hæfileikarnir. Það er athyglisvert að skoða það að ef við kveikjum betur á hæfileikunum þá gerist mikið meira af góðum hlutum í lífinu . Ef að það er ekki samræmi milli hæfileika og getu þá náum við ekki árangri í því sem við erum að gera í dags daglegu lífi.
Skoðum nú sérstaklega orðið geta, en þar liggur yfirleitt hundurinn grafinn, ekki það að okkur vanti hæfileika. Við segjum oft við sjálf okkur að við getum ekki hitt og kunnum ekki þetta en það er ekki vegna þess að okkur skorti hæfileika til verksins, þarna er getan að halda okkur niðri. Vondar tilfynningar og erfiðar upplifanir gera það að verkum að getan okkar verður lítil sem engin. Við þurfum að láta getuna og hæfileikana vera samstíga en þá fara hlutirnir líka að gerast.
Það er gott að velta því fyrir sér af hverju getan sé ekki meiri hjá mér til þess að takast á við verkefni dagsins heldur en raun ber vitni í staðin fyrir að vera að úthúða sjálfum mér fyrir að kunna ekki hluti eða hafa ekki hæfileika. Þetta getuleysi svo kallaða á við um mjög marga hluti t.d. vinnuna og samskipti við annað fólk. Það er oft vegna vana að við getum ekki hluti en ekki vegna þess að okkur skorti hæfileika til. Hugsum um það að ef að við höldum áfram að gera hlutina eins og við höfum alltaf gert þá, þá halda allir hlutir áfram að vera nákvæmlega eins og þeir hafa alltaf verið.
Ef að við brjótum ekki upp vanann þá náum við aldrei getunni upp að hæfileikunum og þá njóta hæfileikarnir sín aldrei þar sem getan heldur aftur af okkur. Skoðaðu vel hvort þú ert að nota hæfileikana þína í samræmi við það sem þú hefur eða hvort þú ert að láta getuna stoppa þig í öllu á hverjum einasta degi.
Gangi þér vel.
Hvað gerir það að verkum að við upplifum höfnun? Hvað veldur því að við finnum til höfnunar, jafnvel oft sama daginn. Við upplifum gjarnan þessa sterku tilfinningu þegar einhver segir eitthvað við okkur sem okkur líkar ekki. Það er eins og það sé takki í huganum sem við getum kveikt og slökkt á, bara svona eftir því hvort okkur líkar eða líkar ekki það sem sagt er við okkur . Ef okkur líkar illa við það sem er sagt við okkur, þá finnum við til höfnunar en ef okkur líkar það vel þá finnum við ekki fyrir henni.
Það er ágætt að skoða það hvort kveikt eða slökkt sé á þessum takka. Höfnunin á við um fleiri hluti. Margir upplifa það að þeir séu undir smásjá hjá öðrum og stanslaust sé verið að hafna þeim. Það er líka fullt af fólki sem upplifir það að aðrir hafi áhuga á þeim. Þannig er þetta, við kveikjum og slökkvum á þessu fyrirbæri í huganum, allt eftir því hvernig okkur líður sjálfum.
Það er oft þannig að við hugsum um það hvort við höfum tapað eða grætt t.d. í samræðum eða viðskiptum. Það er mjög gott að hugsa þannig að við höfum ekki tapað heldur grætt minna en við ætluðum okkur. Einnig gæti verið að við værum ekki nægilega vel metin, kannski sjá aðrir ekki hæfileikana þína en það er ekki þar með sagt að verið sé að hafna þér. Það hafnar þér enginn nema að þú leyfir það. Áttaðu þig á því að þetta er mest í þínum eigin huga, þetta gerist allt í höfðinu á sjálfum þér.
Hugsaðu t.d. um það í dag að ef einhver segir eitthvað við þig sem þér finnst óþægilegt, þá ræður þú hvernig þér líður undan því. Láttu það ekki ganga sjálfkrafa yfir þig að þú upplifir höfnun, þú þarft þess einfaldlega ekki. Láttu ekki hafna þér í dag. Stattu heldur með sjálfri þér og hugsaðu: “ég ætla að ráða hvernig ég upplifi þetta, ég ætla ekki að kveikja á þessum höfnunartakka”. Hafðu slökkt á höfnunartakkanum í dag.
Gangi þér vel.
Jólin nálgast bráðum en jólin gera fyrr vart við sig í undirmeðvitundinni heldur en á dagatalinu, við erum farin að upplifa jólin meira í huganum heldur en dagsetningin sé að nálgast. Við förum að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa þetta tímabil í lífi okkar sem á að vera besta tímabilið í lífinu og hvernig við ætlum að koma því í kring. Venjulega eru jólin besti tíminn í lífi margra en þannig er nú ekki farið hjá okkur öllum, það þarf ekki endilega margt að hafa farið úrskeiðis svo tilhugsunin um þennan tíma sé ekki mjög góð.
Mjög oft höfum við komið okkur upp föstum venjum í kringum jólahaldið sem gerir það að verkum að þetta verður kvíðvænlegt tímabil. Jólakvíði er algeng tilfinning sem nauðsynlegt er að hlusta eftir svo hægt sé að gera breytingu þar á. Jólakvíði kemur vegna þess að við erum ekki búin að ákveða hvernig við ætlum að hafa jólin og mjög oft eru það venjurnar sem hleypa okkur inn í aðstæður eins og þær að hugsa mikið um það hversu miklir peningar eiga eftir að fljúga úr veskinu, hugsa svo enn meira um öll þau verkefni sem eftir er að leysa og allt sem við ætlum að gera svo að jólin mega verða sem best hjá okkur.
Jólakvíðinn byrjar að gera vart við sig löngu, löngu áður en dagsetningin segir til um, ef þú skoðar hvernig þig langar að hafa jólin þá losnar þú við þennan kvíða. Þú skalt ákveða hversu miklum peningum þú ætlar að eyða og ákveða hversu miklum tíma þú ætlar að eyða í jólastússið. Með þessu móti einfaldar þú mjög hlutina ásamt því að læra helling. Skoðaðu hlutina, veltu því fyrir þér hvernig þú vilt hafa þetta, ekki láta gamlar venjur rígbinda þig.
Jólin eiga ekki að vera hlaðin streitu og áhyggjum, þó svo að einhvern tíma hafi eitthvað farið úrskeiðis hjá þér er ekki þar með sagt að jólin séu endilega erfiður tími eða neikvæður. Hlutirnir eru alls ekki þannig. Þú getur skapað þín eigin jól, haft hlutina eins og þig langar til. Hafðu það í huga og það er mikilvægt, þín jól eru þín jól, fyrir þig . Ekki láta leiðindi og venjur úr fortíðinni trufla þetta ánægjutímabil sem jólin eru. Þú skalt ákveða hvernig þú ætlar að hafa jólin, settu þetta allt í fastar skorður. Notaðu bæði þá peninga og þann tíma sem þú átt og þá líður þér mikið betur.
Gangi þér vel.
Meðvirkni er stór og fyrirferðamikill hlutur og ekki einfalt að tala um hann í fáum orðum. Meðvirkni líkist einna helst því að við stöndum með báða fæturna í lími og þegar við reynum að losa annan fótinn er hvergi hægt að setja hann niður aftur nema í límið. Þetta er í raun eins og að vera í gildru.
Það er skrítið hvernig þetta meðvirkniástand skapast. Í raun er það sem gerist að okkur fer að líða eins og þeim sem stendur við hliðina á okkur. Við verðum meðvirk undir mörgum kringumstæðum, við verðum meðvirk með þeim sem eru veikir, fólki á vinnustaðnum og fólki sem eru vinir okkar eða kunningjar. Það sem einkennir þetta ástand mest er að okkur líður eins og öðru fólki.
Þegar meðvirkni gerir vart við sig förum við að sýna viðbrögð, verðum snögg til að bregðast við hvernig aðrir hegða sér. Til dæmis á vinnustað ef einhver er áberandi geðvondur þá byrja allir að fara aðeins í vörn gagnvart því sem gerist næst. Ef einhver er í fýlu þá höldum við af okkur og þegjum frekar en að fara að tala og segja “hvaða ólund er þetta í þér maður, vertu einhvers staðar annar staðar með þessa lykt þína”. Við segjum það ekki þegar við erum meðvirk. Við einfaldlega förum inní sama hegðunarmunstur og sá sem er við hliðina á okkur.
Ég held að þetta sé óþolandi ástand fyrir okkur öll. Þetta gerist án þess að við gerum okkur grein fyrir því, við temjum okkur þetta hægt og rólega og allt of oft erum við að labba á tánum í kringum fólk sem er beinlínis leiðinlegt, geðvont eða í vondri líðan. Fyrir okkur þessa einstaklinga sem erum að sýna þessa meðvirkni þá er voðalega gott að hugsa þetta uppá nýtt og velta því fyrir sér að þú þarft ekkert að tengja þínar tilfinningar við tilfinningar næsta manns.
Þú þarft frekar að hugsa “honum/henni líður svona en mér þarf ekki endilega að líða svona”. Það verður hálfgert fangelsi að vera í meðvirkni og vera sífellt hugsandi um það hvernig skap er í manneskjunni við hliðina á þér hvort sem það er yfirmaður þinn, starfsmaður, maki þinn eða ættingi. Ef þú ert farinn að hugsa of mikið um það hvernig ástandið á þessum einstaklingi er ertu orðinn meðvirk.
Ég held það séu ekkert ákjósanlegar aðstæður. Það að vera mjög meðvirk held ég að sé mesta frelsissvipting sem við getum sett okkur sjálf í. Ég held það sé langbest að vera maður sjálfur og þeim mun meira sem við glímum við að vera við sjálf þeim mun betur líður okkur. Veltu því fyrir þér að taka daginn í dag í að vera þú sjálfur. Vertu þú sjálfur, ekki vera eins og einhver annar er. Lifðu þínu lífi, ekki vera að reyna að lifa lífi annarra einstaklinga.
Gangi þér vel í dag að vera þú.
Mótlæti er hlutur í lífi okkar sem kemur og er einn af þessum þáttum sem við ráðum ekki mikið við. Það hefur verið talað um það að lífið sé haugur af krísum og ég held að það sé nú þetta sem kemur með misjöfnu millibili. Þegar mótlætið byrjar að birtast í lífi okkar er stundum eins og það ætli engann endi að taka. Það er engu líkara en að þetta komi í svona tilboðspökkum, tíu krísur í pakka. Ekki er alltaf auðvelt að bregðast við þessu og stundum upplifum við þetta sem mikið ranglæti. Okkur finnst það vera ósanngjarnt og bregðumst við með þannig hugarástandi að það bara versnar, það lagast ekki.
Eina leiðin til að takast á við mótlæti, er fyrst og síðast að styrkja sjálfan sig og ná tökum á sinni andlegu líðan og tilfinningaástandi. Það er ekki þannig að það er ekki hægt að smeygja sér framhjá þessu mótlæti. Það er ekki hægt að verða flinkur í því að smeygja sér framhjá mótlæti en hægt er að takast á við það og fara í gegnum það og þá fyrst verður það að reynslu sem að nýtist okkur og styrkir okkur. Mótlæti styrkir okkur en veikir okkur ekki.
Við erum samt svo sem ekki himinlifandi þegar við fáum mikið af mótlæti og við erum sjaldnast glöð með það þegar það birtist í einni eða annarri mynd. En það er gott að hugsa það þannig að mótlæti færir okkur fjær veraldlegum ávinningum og nær því góða og fallega í lífinu og það er eitthvað sem er gott að velta fyrir sér og hugsa um.
Ég held það sé gott að hugsa um það “hvað hef ég farið í gegnum mikið af mótlæti í lífinu”. Ég held það sé einnig ágætt að breyta til næst þegar þú hittir vini þína og prófa einu sinni að skiptast á hörmungasögum í staðinn fyrir að vera alltaf að horfa á hvað þú hefur eignast eða hvað þú hefur gert sjálfum þér til framdráttar. Þá færðu kannski aðra sýn á lífið og tilveruna og það er nú kannski grunnurinn af því að láta sér líða vel og eiga góðan dag.
Ég held það sé ágætt snemma morguns að horfa á það að líklega bíður þín mikið af mótlæti í deginum. Ég vona að þér gangi vel með mótlætið þitt í dag og líttu á það jákvæðari augun en þú hefur kannski gert og sjáðu hvort það gengur ekki betur að fara í gegnum það.
Gangi þér vel í dag
Óánægja er það "yndislega" ástand sem við dveljum gjarna í þegar okkur langar ekki til að taka ábyrgð á því hvernig okkur líður. Þá gerum við meira af því að sýna hegðun, sýnum líðan okkar meira í hegðun heldur en að tala um hvernig okkur líður.
Hugsanirnar sem fara af stað hjá okkur þegar við erum óánægð eru aðallega þessi bölsýni, reiði og neikvæðni. Þá er lítið hugsað um hvernig við getum gert sem best úr málunum. Við erum aðallega að velta því fyrir okkur vel og lengi hvernig við getum verið óánægð.
Við getum náð býsna mikilli færni í að vera óánægð,sumum okkar tekst að vera óánægð í marga klukkutíma eða jafnvel marga daga og þeir sem flinkastir eru í þessu geta verið óánægðir vikum og jafnvel mánuðum saman. Það sem gerist þegar við erum óánægð er einfaldlega það að við viljum ekki bera ábyrgð á því hvernig okkur líður. Við erum í raun óábyrg þegar við erum óánægð.
Að vera óánægður einstaklingur er mesti þreytuvaldur sem til er, algjör orkuþjófur. Rænir okkur vellíðan og sviptir okkur þeirri yndislegu tilfinningu og upplifun að geta verið sæl og glöð með það sem við erum að gera. Hugsanirnar sem eiga sér stað þegar við erum óánægð eru sérstaklega þær að okkur finnst við hafa orðið fyrir ranglæti og við finnum okkur í því að vera geðvond vegna þess að það er einhversem er ekki sanngjarn við okkur.
Ég held það sé gott sérstakleg á morgnanna þegar maður vaknar að skoða stöðuna og skoða “er ég þessi óánægði einstaklingur eða ætla ég að vera ánægður í dag” þú ættir að velta þessu aðeins fyrir þér áður en þú leggur út í daginn, ertu ánægður eða óánægður?
Ekki láta daginn líða í óánægju, gangi þér vel í dag.
Hvað er nú það? Hvernig erum við þegar við höfum sjálfstraust og hvernig erum við þegar við höfum ekki sjálfstraust. Það er kannski best að byrja að velta því fyrir sér hvernig dagurinn er þegar við finnum til okkar. Hefur þú fundið til þín undanfarna daga? Finnst þér þú hafa haft mikið sjálftraust síðustu dagana eða finnst þér sjálfstraustið vera lítið?
Það er ágætt að skoða nokkra hluti í kringum sjálfstraust t.d. hvernig það byggist upp og hvernig það kemur. Sjálfstraust er ekki meðfætt, það er eitthvað sem við verðum að rækta upp með okkur og við þurfum að hafa töluvert mikið fyrir því. Það er ekki sjálfgefið að hafa gott sjálfstraust. Það besta sem við gerum til að öðlast sjálfstraust er að hrósa sjálfum okkur, svo að ekki sé nú talað um það að hrósa öðrum sem eru í umhverfi okkar.
Athugum hvernig hrós virkar. Ef við hrósum öðru fólki, þá fáum við gjarnan sömu viðbrögð til baka, við fáum hrós. Tileinkaðu þér t.d. í verslunum að bjóða góðan daginn og taktu eftir því að fólk tekur undir kveðju þína og býður þér góðan dag. Þetta er svokölluð jákvæð athygli og við þurfum að fá athygli.
Það er hins vegar mikill munur á jákvæðri og neikvæðri athygli. Jákvæð athygli veitir gríðarlega mikið sjálfstraust og með því að gefa frá sér hrós þá fáum við hrós til baka. Því hefur stundum verið haldið fram að þegar við hrósum annarri manneskju þá geti sú hætta verið til staðar að viðkomandi verði montin, þannig er það alls ekki. Það er mjög mikilvægt að fá að finna til sín því ef þú finnur ekki til þín þá líður þér ekkert sérstaklega vel.
Það er í besta lagi að finna til sín, það er ekki það sama og mont. Þegar við erum montin þá erum við óörugg. Þegar við finnum til okkar, þá erum við örugg með okkur. Skoðaðu að morgni dags hvernig þér líður. Finn ég til mín núna eða er ég óörugg? Spurðu þig aftur og aftur sömu spurningar, er ég ekki örugglega að finna til mín núna? Taktu svo eftir því að dagurinn verður miklu betri hjá þér.
Gangi þér vel.
Er það tímabil á árinu þegar minni sólar nýtur við og myrkrið verður meira og það skrítna sem gerist í skammdeginu er að það verður oft minna um jákvæðar hugsanir í lífi okkar. Vinur minn hringdi í mig fyrir nokkrum dögum og sagði mér það að hann langaði ekki til að lifa lengur og að hann gæti ekki hugsað sér að takast á við þær aðstæður sem hann væri í núna. Mörg okkar þekkja þessar aðstæður úr umhverfinu, það er einhver í kringum okkur sem ekki líður vel á þessum tíma.
Mér finnst gott að spyrja sjálfan mig þessarar spurningar: "hvernig líður mér?" þegar myrkrið kemur og daginn fer að stytta. Ég held að það sé gott að velta þessu aðeins fyrir sér, er ég með svartar hugsanir eða einhver í kringum mig með svartar hugsanir. Það er eitthvað við sólina og sólarljósið sem gerir það að verkum að okkur líður betur. Það verður hins vegar ekki hjá því komist að þar sem við búum á Íslandi kemur þessi tími hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er ekki hægt annað en að lifa með þessu og það er hægt að auðvelda sér þennan tíma með því að gera markvisst skemmtilega hluti, láta sér líða betur, láta sig hlakka til, skipuleggja eitthvað skemmtilegt, gera eitthvað ákveðið t.d. næsta laugardag eða eftir einn mánuð eða tvo, einhverja tilbreytingu, eitthvað gaman, byggja upp eftirvæntingu.
Það er tilhlökkun sem kemur okkur í gegnum þetta tímabil þannig að við fáum ekki svartar hugsanir í sálarlífið, það er tilhlökkunin sem gerir það að verkum að við verðum ekki döpur þó að við fáum ekki sólarljósið . Það er eiginlega alveg nóg að hafa myrkrið allt í kringum okkur þó að við hleypum því ekki inn í sálartetrið hjá okkur. Ekki hleypa myrkrinu inn í sálarlífið því að þá líður þér illa og þá hefur þú engin tök á þessum neikvæðu hugsunum sem að leita gjarnan á okkur undir þessum kringumstæðum.
Passaðu þig og passaðu upp á að það sé alltaf sól í sálarlífinu þínu.
Gangi þér vel.
Ég hef oft velt þessu fyrir mér og núna þessa dagana hefur þetta svamlað í höfðinu á mér, haldið fyrir mér vöku, og vakið mig þegar ég loksins sofna. Allir englar eiga sér fortíð og allir skussar eiga sér framtíð, þetta er sem sagt setningin sem er mér hugleikin nú. Þetta er bara eins og þokkaleg vítaruna í heimspekinni. Ef ég er engill ætti ég mér fortíð sem væri ekkert sérstök, annars hefði ég ekkert lagast... já, þannig er það nú víst í mínu tilfelli.
Ef ég er skussi þá á ég mér framtíð, líklega á ég þá möguleika á betrun, sem er ekki endilega víst að mig langi alltaf til. Ég hef lengi haft einlæga löngun til þess að vera ærleg manneskja. Það hefur gengið mis vel, einhver skussi er í mér ennþá, englaástandið er brothætt og á köflum langar mig að henda fortíðinni á einu bretti og aldrei að líta til baka, lifa í þokkalegri afneitun.
Stundum er ég svo þakklátur fyrir lífið og tilveruna að undrun sætir, helst þá man ég hvað ég hef lært af reynslunni og því góða fólki sem hefur verið mér samferða í súru sem sætu. Ekki má ég láta hjá líða að minna mig á öll leiðindin sem ég hef komið mér í, með þrotlausri vinnu hefur tekist að snúa sársauka í sælu, þvílík dásemd.
Englaástandið færir mér þær lausnir og flesta daga ársins er þetta bara nokkuð gott. Einhverjir dagar eru samt eftir fyrir skussann. Það hefur komið fyrir á undanförnum árum að ég hef vaknað og langað að nota þann dag til að vera í fýlu, og vera allvöru fúll, senda frá mér strauma sem virkilega fá fólk til að finna óánægju mína, þvílík nautn, ummm. Sem betur fer endist þetta ekki lengi hjá mér, við þessi tækifæri verð ég skussi.
Ég hef oft sagt við sjálfan mig og aðra að það er alltaf val, val til að stjórna líðan sinni, val til að velja árangur eða klúður, eymd eða ánægju. Í hugarfari skussans er ekki pláss fyrir skynsemi, í hugarfarinu má alltaf fresta hlutum til morguns og láta stjórnast af augnablikinu, eða gremju og ólund. Dásamlegt ástand. Það virðist vera svo dásamleg stundar hugsun að ýta hlutum frá sér og vonast eftir lausn annarsstaðar frá en sér sjálfum.
Viðkvæmustu augnablikin í lífi mínu eru án efa þegar ég fer yfir viss þreytumörk, eða áföll dynja á mér, þá fyrst verður nú gaman. Viðkvæmnin blossar upp, ranghugmyndir þyrlast um hugann, samtöl við fólk gömul og ný verða ljóslifandi í huganum, á þessu augnabliki er nú hægt að rétta sinn hlut gagnvart öðrum, og láta aðra fá það óþvegið, jafn gott að enginn heyri til mín.
Þetta skussa ástand er sem betur fer fátítt. Oft er mér boðið upp á leiðindi, álíka oft man ég eftir því að vera ekki að láta steyta á málum, ég bara færi mig og leiðindin fara hjá. Það er svo ótrúlega gott þegar mér hefur tekist að komast í gegnum daginn án þess að vera skussi, þegar góðir dagar verða að vikum og vikurnar að mánuðum er svo gaman að vera til.
Englaástandið er sem sagt iðkun og endurtekningin sem verður að vana, skussa ástandið er það líka, margir verða ótrúlega flinkir í því. Ég held ég haldi bara áfram að fást við englaástandið, horfist í augu við gjörðir mínar og líðan á hverjum tíma.
Hefur þú ákveðið hvort þú vilt vera?
PS: Englarnir fljúga því þeir taka sig ekki hátíðlega
Umfjöllunarefni mitt er frídagurinn Sunnudagur. Hann getur verið æði misjafn stundum hlaðinn streitu, væntingum og oft veldur hann sárum vonbrigðum. Það á að gera svo margt t.d. taka til, hvíla sig, hitta fólk, sofa út og auðvitað að borða eitthvað gott.
Skrítið hvernig þessi dagur getur breyst í martröð þrátt fyrir öll þessi góðu áform. Við erum kannski ekki í neinu stuði til þess að framkvæma neitt af þessum verkum. Í raun ætti þessi dagur að vera besti dagurinn í vikunni en af hverju verður hann oft svona leiðinlegur. Getur verið að við séum með óraunhæf markmið fyrir daginn, svekkjum við okkur yfir því sem að við náðum ekki að framkvæma, er kannski kvíði í okkur fyrir næstu vinnuviku. Við ætluðum að gera svo margt og það átti að vera svo gaman og svo horfum við á daginn renna burt frá okkur í algeru aðgerðarleysi og við erum óánægð og spæld.
Staðreyndin er hins vegar sú að við erum búin að hlaða á okkur allt of mörgum verkefnum og erum alltaf að stjórna hlutunum sem aftur veldur okkur kvíða því verkefnin eru einfaldlega of mörg og svo margt sem ekki er fyrirsjáanlegt getur gerst. Besta hvíldin fellst í tilbreytingunni, það er gott að hafa skipulag á Sunnudeginum og inni í skipulaginu þarf að vera einhver tilbreyting eitthvað sem okkur finnst gaman að gera t.d góður göngutúr eða bíltúr, skoða ný hverfi, fara austur fyrir fjall.
Að fara inn í Sunnudag án þess að vita eitthvað um það hvernig við ætlum að hafa hann getur verið allt að því hættulegt og það kallar oft á vandræði sem að við hefðum kannski komist hjá annars.
Gangi þér vel með næsta sunnudag.
Hvað er nú það? Er maður almennt óábyrgur eða er tilfinningalegur óheiðarleiki sérstakt fyrirbæri?
Skoðum nokkur dæmi.
Sá eða sú sem er haldin þessum kvilla á afar erfitt með að tengjast tilfinningalega djúpt, það er svokallað “trust issue”. Þetta lýsir sér í því, að í samböndum tjaldar fólk ekki til margra nátta. Það er alltaf tilbúið að víkja af leið ef eitthvað bjátar á. Hlaupaskórnir alltaf tilbúnir ef á þarf að halda, ég hef stundum kallað þetta “flóttafólk”. Fyrirbærið getur verið eins og sjálfhverfa og er líklega sömu ættar.
Sá sem ekki getur tengst djúpum tilfinningaböndum getur aldrei byggt upp eða lagt mikið af mörkum til trausts og stöðugleika í sambandi, en sá sami er gjarnan yfirlýsingaglaður um ást sína og þakklæti. Þekkt dæmi og frasar slíkra einstaklinga: “Mér líður eins og ég sé loksins komin heim þegar ég er hjá þér”. “Ég er al sæl/sæll”. “Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt”.” Ég ætla að eiga þig alltaf”.” Ég ætla að giftast þér því þú ert ástin í lífi mínu”.
Svona mætti lengi telja. Ef sambönd af þessum toga endast meira en sex til tólf mánuði sem er algengur tími hjá þessu fólki, fer að bera á tregðu þess óábyrga til að leggja sitt af mörkum. Það fer að bera á setningum eins og, “Þú ert betur komin án mín” .”Er þá ekki bara best að ég fari!”.”Er það hvort eð er ekki það sem þú vilt?”.
Færni og vilji þessara einstaklinga til að leysa úr ágreiningi eða hnökrum er ekki til staðar. Þess í stað er alltaf verið að bjóða upp á skilnaðar umræðu. Nýlega hef ég séð sorgleg dæmi þessara mála, þar sem kona nokkur henti frá sér sex ára sambúð og innilegu ástarsambandi (að því er virtist), öryggi og festu, æddi með barnið sitt úr öryggi og umhyggju í fullkomna óvissu. Við nánari skoðun kom í ljós að ágreiningur var lítill í sambandinu og bæði eru sammála um að mikið er af tilfinningum (mis djúpum) á milli parsins.
Ekkert af þessu dugar konunni til að horfast í augu við stöðuna og vinna með málið, hún kís að flýja og afneita tilfinningum sínum (virðist dauð skelkuð við þær), af því er virðist murkar hún lífið úr sínum tilfinningum til makans og sambandsins. Merkilegt er að fylgjast með því hvernig hún hefur farið í herferð til að búa til nýjan sannleika um fortíð þeirran, ber jafnvel á maka sinn að hann hafi kúgað sig, segir að hann hafi bannað henni að hitta vini sína, ekki mátti hún stunda yoga, hann hafi viljað halda henni frá ættingjum sínum og helst hafa hana heima, og fleira þessu líkt, (sögufalsanir Stalíns g amla fölna við samanburðinn), þrátt fyrir bréf og yfirlýsingar hennar til maka síns þar sem hún segir allt annað.
Óttinn við að horfast í augu við aðstæður og smávægilegan óheiðarleika sem virðist hafa verið komin í sambandinu varð yfirsterkari kærleika og ást. Dapurlegt! Sér í lagi þar sem einstaklingurinn notar gjarnan ávörp og kveður eins og, kærleikur og ljós umvefji þig, og, eigðu góðan dag.
Þegar allt kemur til alls eru það ekki yfirlýsingar og orðagjálfur sem skipta máli heldur gjörðir. Blíðmælgi er alltaf til bóta, verður þó að hafa innistæðu. í þessu stutta dæmi, en þó all algengu, má sjá að orð og gjörðir fóru ekki saman, færnin til að flýja er sterkari en viljinn til að vera og leysa mál sem upp koma í öllum samböndum.
Að vera flóttamaður í eigin lífi er færni sem margir ná góðum tökum á. Ekki er óalgengt að á miðjum aldri hafi þessir flóttamenn átt í mörgum en stuttum samböndum. Þau byrja öll af miklum ákafa en endast illa.
Máltækið “Sekur flýr þó enginn elti!” á vel við í svona málum.
Vanmat er ástand sem við fæðumst ekki með, þetta er lærð hegðun og við temjum okkur þessar aðstæður. Ég held það sé ágætt að athuga hvort maður hefur vanmat með því að spyrja sig “ert ég sá sem segi alltaf já þegar ég meinar nei?”. Ef svarið er já þá þarft þú að hugsa um það að þú sért líklega með þetta vanmat.
Það er skrítið með vanmatið að við förum að hegða okkur meira eins og við höldum að fólk vilji að við hegðum okkur. Við erum búin að segja já þegar við meinum nei löngu áður en við erum í raun búin að gera okkur grein fyrir hvort við viljum gera það sem er verið að biðja okkur um eða ekki.
Stundum verður þetta svo langt gengið ástand að við missum eiginlega allan frjálsan vilja og verðum þar af leiðandi hálfgerðir þrælar annarra einstaklinga. Ef maður ætlar að losna útúr þessu vanmati, er ágætt að snúa við hugsuninni og spyrja sjálfan sig “hvernig er það sem mig langar að hafa hlutina, hef ég tíma til að gera þetta, langar mig til að gera þetta” og svo koll af kolli.
Við erum veikust fyrir þessum aðstæðum gagnvart fólki sem er nálægt okkur í umhverfinu, ættingjum okkar, fjölskyldunni, vinnufélögum og seinast kannski vinum okkar. Það er eiginlega rosalega pínleg staða að vera komin í þannig aðstöðu í lífinu að maður þorir aldrei að stíga á tærnar á næsta manni af ótta við það að honum hætti að geðjast að okkur. Þegar við erum komin í þannig stöðu að við erum farin að hugsa meira um hvað fólki finnst um okkur heldur en það hvað okkur finnst sjálfum um okkur, þá erum við komin útúr því að lifa því sem okkur langar til að vera, að lifa í lífinu.
Við erum komin að því að vera ofsalega upptekin af því hvað öðrum finnst um okkur og hvað aðrir koma til með að segja um okkur. Þetta eru eiginlega alveg vonlausar aðstæður. Ég held það sé langbest að ef maður stígur á tærnar á næsta manni að segja þá einfaldlega “fyrirgefðu ég steig á tærnar á þér” heldur en að byrja á því að hugsa um hvað honum finnst um þig. Slíkur hugsana flutningur er eiginlega vonlaus og þannig hugsana lestur gerir ekkert nema láta þér líða illa. Ef þú ert í þeirri s töðu að segja já þegar þú meinar nei, taktu þér þá nokkrar sekúndur og veltu því fyrir þér áður en þú segir já, “hvað er það sem mig langar að gera”.
Ekki segja já í dag fyrr en þú ert alveg klár á því að þú meinar já.
Gangi þér vel í dag
Hefur þú velt því fyrir þér hver verðlaun lífsins eru. Getur það verið að verðlaunin séu af hinu veraldlega af eigum okkar eða af því sem okkur langar í eða það sem að okkur vantar. Eru verðlaunin fólgin í veraldlegum eigum eða einhverju öðru. Ef við hugsum mikið um það sem við eigum eða þurfum eða hvað það nú er sem að við getum keypt, þá fjarlægjumst við ansi mikið hin raunverulegu verðlaun sem að lífið hefur upp á að bjóða.
Hefur þú einhvern tíman hugsað um það að ef þú þarf að fá einhvern hlut þá er ótrúlega stutt í það að þú verður að fá hlutinn og þegar þú ert búin að verða að fá hlutinn í vist langan tíma þá ferð þú og kaupir hann. Um leið og við f örum að þurfa og verða þá fjarlægjumst við litlu hlutina sem eru að gerast í kringum okkur og eru hvað mikilvægastir.
Ég held að það sé þannig að þeim mun meira sem að við kaupum okkur þeim mun meiri skuldbindingar eignumst við, já við eignumst skuldbindingar og þær gera okkur ekki alltaf hamingjusöm. Er það ekki aðalatriðið að þeim mun meiri hamingju sem að þú eignast í lífinu þeim mun betur líður þér. Verðlaun lífsins felast fyrst og fremst í því hvernig okkur líður og litlu hlutirnir eins og t.d. bjartsýni , víðsýni og ást gera mikið meira fyrir okkur en veraldlegir hlutir.
Athugaðu hvort að þú sért ástfanginn af lífinu, gáðu að verðlaununum þínum, kíktu á litlu hlutina þína og athugaðu hvort að þú eigir ekki fullt af verðlaunum í dag og hvort þér hafi nokkuð yfirsést eitthvert smáatriði sem skiptir máli.
Gangi þér vel í dag.
Þakklæti er tilfinning sem að kemur af væntumþykju . Þegar við upplifum þakklæti þá líður okkur vel, við erum glöð og ánægð. Það er mjög gott að líta til baka yfir farinn veg og sjá hvað hefur gengið vel og við erum ánægð með. Það er alls ekki sjálfgefið að hlutir gangi vel og ekki sjálfgefið að við séum þakklát. Þakklæti er eitthvað sem að við verðum að rækta upp við þurfum að hafa fyrir því að vera þakklát við þurfum stöðugt að minna okkur á mikilvægi þess að vera þakklátur. Vanþakklæti er oft tilfinning sem að við þekkjum betur en þakklæti. Við þurfum að gefa huganum leifi til þess að vera þakklát og til þess að sína umhverfi okkar væntumþykju.
Ég held að við getum framkallað ótakmarkaða hamingju ef að við erum þakklát, við þurfum að hugsa um og meta það sem að við höfum en ekki velta okkur upp úr því sem við höfum ekki. Vanþakklæti leiðir ekkert af sér nema biturð og einmannaleika. Þakklæti er í hópi tilfinninga sem gefa okkur jákvætt afl alveg eins og tilfinningarnar, tilhlökkun og tillitssemi.
Við skulum tileinka okkur jákvæða hugsun og vera þakklát, líka fyrir litlu hlutina. Ég er allavega þakklátur fyrir að þú skulir gefa þér tíma til að kíkja á þennan pistil.
Gangi þér vel.